Hesteyri.is er í eigu Félags landeigenda á Hesteyri
Myndir: |
Páskaganga 2006 Nú um páska 2006 var farin gögnuferð frá Látrum í Aðalvík til Hesteyrar. Veður var mjög gott í byrjun, sól og hægviðri en vind herti lítils háttar er leið á gönguna. Í ferðinni voru 11 manns mis vanir skíðagöngu. Leiðin sem farin var er um 12,5 km og tók um 3,5 klst. Leiðin er ekki erfið en skíðafæri var frekar erfitt. Farið var af stað frá Ísafirði kl 10 að morgni föstudaginn langa. Fararstjóri var Jón Björnsson "göngugarpur". Farkosturinn var farþegabáturinn Bliki frá Sjóferðum H og K. Ferðin norður tók rúma klukkustund. Þokkalegt var í sjóinn alla leið en smá veltingur yfir djúpið.Vel gekk að koma hópnum í land að Látrum. Komið var í land við Sjávarhúsið, en rétt utan við það var áður bryggja þeirra Látramanna. Þegar komið var í land tók á móti okkur pínulítill selskópur sem var ekki í fylgd með fullorðnum. Hópurinn safnaðist saman við slysavarnarskýlið áður en ganga hófst. Gengið var frá Látrum yfir sandana að mynni Reyðardals þar sem áð var eftir um 4 km göngu. Eftir stutta hvíld var haldið áfram upp dalbotninn sem liggur þarna í nokkrum stöllum. Farið var upp undir svo nefnd Reyðardalsvötn en síðan snúið inn á heiðina í átt til Hesteyrarskarðs sem er á milli Kagrafells til austurs og Búrfells til vesturs. Þegar þarna var komið hafði hvesst nokkuð af suðaustri og því vindurinn beint í fangið. Ekki var stoppað nema stutta stund í skarðinu því vindurinn kældi göngufólk hratt niður. Áfram var haldið niður í Hesteyrardal en þegar komið er yfir skarðið þá er aflíðandi rennsli alla leið niður að Hesteyri. Til stóð að stoppa á Hesteyri áður en haldið skyldi heim, en rétt í þann mund sem hópurinn kom að Móum á Hesteyri byrjaði að snjóa og hvessa meira. Var því ákveðið að drífa sig um borð í Blika og þiggja veitingar hjá þeim hjónum Hafsteini og Kiddý. En allir sem vildu fengu heitt kakó með "STROH" út í. Síðan var siglt sem leið liggur út Jökulfirði og yfir Ísafjarðardjúp til Ísafjarðar þanngað sem komið var um kl hálf sex. Undirritaður þakkar samferðafólki skemmtilega ferð. Elías Oddsson
|
|
Tenglar: |
Hesteyri.is - Elías Oddsson